12 maí 2006

Góð kaup

Ég ánægður á svip er ég steig út úr H&M í gær
Í gær brá ég mér í H&M að ósk Dísu til að kaupa mér eins og nokkur stykki stuttermaboli. Ég keypti mér nefnilega sumarjakka í H&M um daginn og komst svo að því þegar heim var komið að ég átti engin föt til að vera í undir honum. Hef ég þess vegna gengið ber inn undir jakkanum seinustu daga. Það fannst Dísu ekki smekklegt og sendi mig þess vegna í annan verzlunarleiðangur. Ég bara verð að segja ykkur lesendur góðir að ég gerði reifarkaup í H&M í gær, má segja að ég hafi fengið mikið fyrir lítið. Tókst mér að finna, nota bene í H&M, þrjá afar smekklega stuttermaboli (sem ég mun sennilega nota mjög mikið) og þar að auki ein sólgleraugu (sem ég mun sennilega aldrei nota) á hreint út sagt frábæru verði. Ég lýg því ekki, kæru lesendur, þegar ég segi ykkur að ég borgaði innan við 350 kr. fyrir allt þetta í H&M. Önnur eins reifarakaup hef ég ekki gert síðan ég verzlaði seinast í Miklagarði.
P.S. Þessi færsla var í boði H&M (zeturnar voru í boði Morgunblaðisins)

10 maí 2006

Ljúfa líf ljúfa líf

Tom York er einlægur aðdáandi Colchester United
Já lífið er ljúft þessa dagana kæru lesendur. Sól og sumar í Danmörku.
Af Dísu er allt gott að frétta þessa dagana. Hún er að vísu enn á spítalanum en losnar von bráðar við súrefnið og verður vonandi útskrifuð fljótlega. Þá getur hún væntanlega farið að njóta sumarsins hér í Danmörku með mér í nokkra daga áður en að við komum svo heim.
Annars hefur verið í nógu að snúast hjá mér undanfarna daga. Ég hef dvalið hér á spítalanum heilu og hálfu dagana eins og gefur að skilja og verið með Dísu í stífu æfingaprógrammi. Þar að auki þá fékk ég Ólaf bróðir minn í heimsókn um seinustu helgi. Ástæða heimsóknar hans var sú að hann hafði frétt að ég ætti tvo miða á Radiohead tónleika hér í Kaupmannahöfn. Þannig að á laugardagskveldið þá skelltum við okkur í KB Hallen og hlýddum á ljúfa tóna Raidohead grúppunnar.
Því má heldur ekki gleyma að sama dag og hinir ágætu Radiohead tónleikar fóru fram þá tryggði mínir menn í Colchester United sér sæti í Championship deildinni að ári, eftir að hafi náð öðru sæti í League One. Sórmerkilegt afrek fyrir ekki stærri klúbb.
Um næstu helgi eigum við Dísa líka von á góðu, því þá mun fjölskyldan úr Faxaskjólinu koma í heimsókn ásamt Sigurði Grétari.
Það eru því góðir tímar framundan kæru lesendur. Ég þakka lesturinn.

19 apríl 2006

Frá 4. sal upp á 14. sal

Dísa og Sheffield United upp um deild

Sælir kæru lesendur enn á ný!
Í gær var Dísa útskrifuð af gjörgæsludeildinni og flutti sig um set upp á 14. hæð á lungnadeild Ríkisspítalans hér í Kaupmannahöfn. Þar mun hún svo dvelja næstu vikurnar meðan hún er að jafna sig eftir aðgerðina auk þess sem endurhæfingin heldur áfram.
Þar sem Dísa er nú komin af gjörgæsludeildinni þá er nú aftur hægt að ná í hana í síma fyrir þá sem það vilja. Af og til er hún með kveikt á gemmsanum sínum fyrir þá sem muna ekki númerið þá er það +45 22823671. Þegar slökt er á GSM símanum eða hann utan þjónustusvæðis þá er hægt að hringja í spítalasímanúmerið hennar +45 70133434 og þegar símsvarinn svarar þá veljið þið 1617 og fáið beint samband við símann við hliðina á rúminu hennar Dísu.
Auk þess mun hún nú verða komin í eitthvað tölvu samband á næstu dögum þannig að sambandið við umheiminn ætti að verða orðið nokkuð gott bráðlega.
Að lokum vildi Dísa að ég kæmi því á framfæri við ykkur lesendur góðir að það sem hefur haft mest áhrif á góðan bata hennar undanfarna daga voru þær fréttir sem ég færði henni á páskadag, en það voru þær fréttir að Sheffield United væri komið upp í úrvalsdeildina eftir 12 ára fjarveru. Dísa hefur einmitt verið dyggur stuðningsmaður strákanna frá Bramall Lane í fjöld mörg ár. Til hamingju Dísa og til hamingju Sheffield United.

13 apríl 2006

Aðgerð

Sælir kæru lesendur!
Ég hef þær gleðifréttir að flytja ykkur að á sunnudaginn síðast liðinn, þann 9. apríl þá fór Dísa í aðgerðina sem hún er búinn að bíða eftir í fjóra mánuði hér í Danmörku. Aðgerðin gekk mjög vel og án nokkura vandræða. Dísu líður ágætlega núna en framundan er endurhæfing á spítalanum.
Nánari fréttir síðar.

03 apríl 2006

Fødselsdagsfest 2: The Sequel


Afmæliskakan sem ég bakaði fyrir Dísu
Já ykkur kann að þykja það ótrúlegt, en það er satt. Dísa á afmæli í dag, jafnvel þó hún líti ekki út fyrir að vera deginum eldri en hún var í gær. Til hamingju með afmælið Dísa.
Í tilefni dagsins þá bakaði ég þessa líka úrvals köku fyrir ástkonu mína, úr hágæða dönsku hráefni. Í kvöld ætla ég svo að elda fyrir hana danskan úrvals kjúkling.
Á morgun eða seinna í vikunni þegar ég verð búinn að ná mér af slappleikanum sem hefur verið að hrjá mig seinustu daga ætlum við svo að fara út að borða í tilefni afmælisins.
Að lokum viljum við Dísa koma á framfæri innilegum hamingjuóskum til afa Dísu sem einmitt á líka afmæli í dag.

27 mars 2006

Gestablogg tengdamömmu Vésteins

Mæðgurnar á flugvellinum
Í miðvikudagshádegi 22.mars mættum við mæðgur á Kastrup. Við urðum fyrir smá vonbrigðum því Vésteinn var ekki mættur til að fagna komu okkar. En hann birtist eftir örfáar mínútur og þá fengum við að vita að flugvallarstarfsmenn höfðu lokað bílastæðakjallara Vésteins og ekki látið hann vita. Ég skil ekki slíka framkomu, vita mennirnir ekki hve oft Vésteinn þarf að sækja mikilvæga gesti? Dísa beið úti í bíl með myndvélina og tók af okkur myndir eins og vera ber er frægt fólk ferðast. Ótrúlegt en satt það var vetur í Kaupmannahöfn, snjór í görðum, glampandi sól og kaldur vindur. Íbúðin hér að Ellebækvej er einstaklega þægileg og þar er þetta ágæta gestaherbergi með uppbúnum rúmum. Næstum óaðfinnanlegt en fullkomnunarsinninn ég varð að finna eitthvað að og gluggatjöldin eru vægast sagt óvenjuleg! Kokkurinn hér kann aftur á móti sitt fag og eldaði dýrindis pestókjúkling og bauð upp á 1.flokks hvítvín með. Þar sem þetta er fyrsta heimsókn móður minnar til Köben urðum við að arka Strikið og þangað fórum við í lest. Við fundum Strikið eftir nokkra leit, því ég er með eindæmum áttavillt heima á Íslandi og ekki skánar það á erlendri grund. Við heimsóttum nokkrar stórverslanir í eigu Íslendinga og einhverjar örfáar sem Danir eiga. Eins og allir vita eiga bílstjórar rétt á frítíma, en einmitt í frítíma Vésteins þurftum við mæðgur allar þrjár að skreppa í IKEA og haldið þið ekki að Dísa og Vésteinn hafi treyst mér til að setjast undir stýri í Kaupmannahöfn og það gekk stórslysalaust! En það var eins gott að bílstjórinn var ekki í fríi þegar leiðin lá í Jónshús því þangað hefði ég ekki ratað. Það er alveg frábært að vera í heimsókn hjá Dísu og Vésteini, þau er alveg einstök og ég mæli með heimsókn til þeirra. Smá ráðleggin í lokin, ef þið ætlið í bíó með Vésteini leyfið honum þá að velja myndina!!
Ingibjörg Gunnarsdóttir

15 mars 2006

Hæstvirtur 2. þingmaður Gentofte veitir andsvar

Þessi mynd tengist þessari bloggfærslu ekki neitt


Ég lofaði víst fyrir nokkru að svara þessu klukki og nú er stundin loks runnin upp. Myndin hér að ofan tengist klukkinu ekki neitt, heldur er aðeins látin fylgja fyrir tengdaföður minn sem ekki les bloggið nema að mynd fylgi.

4 störf sem ég hef unnið um ævina
1. Atvinnumaður í knattspyrnu
2. Eggjatæknir
3. Aðferðafræðikennari
4. Leiðbeinandi í barnaskóla

4 bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur
1. Hard to Kill
2. On Deadly Ground
3. Nico
4. The Glimmer Man

4 staðir sem ég hef búið á
1. Sainty Quay 4.10.D, Colchester
2. Sörlaskjóli 64, Reykjavík
3. Gilsbakka v/Vatnsenda, Kópavogi
4. Ellebækvej 72, København

4 sjónvarpsþættir sem mér líkar við
1. Baywatch
2. Baywatch Nights
3. Knight Rider
4. Nágrannar

4 síður sem ég skoða daglega
1. www.asdf.com
2. www.davidhasselhoff.com
3. www.stevenseagal.com
4. www.neighbours.com

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum
1. Berlín
2. Roskilde
3. Strumpaland
4. Europa Park

4 matarkyns sem mér líkar
1. Lasagne sem Dísa eldar
2. Hamborgahryggur með kóksósu
3. Kjúklinga Vindaloo
4. Ís með súkkulaðisósu

4 staðir sem ég vildi heldur vera á núna
1. Á Íslandi
2. Á Fylkisvelli
3. Í landi þar sem hitastigið fer einstaka sinnum yfir 0°
4. Á Layer Road í Colchester

Þar sem manni er gert að klukka fjóra einstaklinga við þátttöku í þessum klukkleik hef ég ákveðið að klukka bræður mína þrjá (já þið lásuð rétt, þrír) en þeir halda allir út einkar virkum bloggsíðum. Auk þess klukka ég George Clooney sem bloggar einstaka sinnum á hinni skemmtilegu bloggsíðu The Huffington Post.